Blog

Atvinnuhorfur í janúar

Við elskum tölur og stóðumst því ekki mátið að rýna aðeins í tölurnar hjá okkur og athuga hvað þær segja okkur um stöðuna á vinnumarkaði núna í upphafi ársins.

Fjöldi atvinnuauglýsinga

Í janúar birtust í heildina 617 atvinnuauglýsingar á Störf.is og er atvinnumarkaðurinn því greinilega að taka við sér eftir rólegan desembermánuð. Grafið hér að neðan sýnir fjölda birtra atvinnuauglýsinga eftir mánuðum á síðasta ársfjórðungi 2013 og í janúar 2014.

Atvinnuauglýsingar eftir flokkum

Af þeim atvinnuauglýsingum sem birtust í flokkum, birtast flestar í flokknum Sérfræðiþekking eða rúm 38%. Flokkarnir Heilbrigðisþjónusta og Stjórnendastörf koma þar á eftir með rétt tæp 23% og rúmlega 13% auglýsinga.

Séu þessar tölur bornar saman við mánuðina á undan má sjá að þetta er svipuð þróun og verið hefur. Athyglisvert er þó að auglýsingum í flokknum Heilbrigðisþjónusta fjölgar um 5% í janúar samanborið við mánuðina á undan. Þetta er athyglisvert í ljósi umræðu um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Einnig er athyglisvert hve fá störf í Tölvu- og upplýsingatækni eru auglýst í janúar (1,5%) samanborið við mánuðina á undan (6,4%), sérstaklega þar sem oft hefur verið fjallað um viðloðandi skort á fólki í þeim greinum.

Kökurit 3 sýnir hve mikið flokkar voru hlutfallslega skoðaðir á síðunni í janúar. Nokkuð ósamræmi virðist vera á milli auglýstra starfa og því hverju atvinnuleitendur eru að leita að. Þannig eru aðeins um 13% atvinnuleitenda á vefsíðunni að skoða flokkinn Sérfræðiþekking og einungis 7% skoða flokkinn Heilbrigðisþjónusta, þrátt fyrir að mikið sé auglýst í þessum flokkum. Það má því leiða líkum að því að mögulega gangi treglega að manna störf á þessum sviðum.

Atvinnuauglýsingar eftir leitarorðum

Þar sem ekki eru allar auglýsingar birtar í flokkum er einnig athyglisvert að skoða tíðni algengra leitarorða í auglýsingunum. Orðaskýið hér fyrir neðan sýnir algengustu leitarorð í atvinnuauglýsingum í janúar.

Af skýinu að dæma eru langflest störf auglýst í Reykjavík og kemur það varla á óvart. Sérfræðistörf og störf sem krefjast menntunar eru einnig fyrirferðamikil auk þjónustustarfa.

Ef við skoðum einnig algengustu leitarorðin sem voru notuð við leit á síðunni sést að mikið er leitað eftir hlutastörfum og að nemendur eru greinilega farnir að huga að sumarstarfi fyrir næsta sumar. Þetta gefur einnig hugmynd um að vefsíðan höfði til ungs fólks sem nýtir netið í auknum mæli við atvinnuleit. Leitarorð sem viðkoma ferðaþjónustu eru einnig fyrirferðamikil en það er athyglisvert að þau eru ekki áberandi í skýinu að ofan. Aðilar í ferðaþjónustu eru því líklega ekki byrjaðir að auglýsa eftir fólki í sumarstörf fyrir næsta sumar, á meðan atvinnuleitendur eru byrjaðir að skoða laus störf í þessum geira.

Umsvif hins opinbera á vinnumarkaði

Af þeim 617 störfum sem voru auglýst í janúar voru 101 auglýst hjá hinu opinbera eða um 16,37% af heildar störfum, hér er um lítillega aukningu að ræða frá mánuðunum á undan þar sem þetta hlutfall var 15,2%.

Um Störf.is

Störf.is er nýtt vefsetur sem hefur það að markmiði að einfalda atvinnuleitina. Á hverjum degi skannar Störf.is alla helstu vefmiðla og endurbirtir á einum stað öll auglýst störf. Á Störf.is geta notendur jafnframt vaktað ákveðin leitarskilyrði og fengið sendan póst þegar ný atvinnutækifæri sem uppfylla leitarskilyrðin finnast.

Vefurinn var opnaður í september 2013 eftir umtalsverðar endurbætur og hefur umferð um vefinn aukist jafnt og þétt síðan. Tölurnar hér fyrir ofan eru byggðar á notkun á vefnum í janúar 2014, en á því tímabili fékk vefurinn alls rúmlega 28 þúsund heimsóknir með rúmlega 110 þúsund flettingum.

Atvinnuvaktin